Prestshús Sveitagisting er lítið fjölskyldurekið gistiheimili staðsett innan við kilómeter frá Reynisfjöru. Gistiheimilið er mjög vel staðsett því margar náttúruperlur eru í göngu eða akstursfjarlægð frá Prestshúsum. Gestgjafarnir, Einar Kristinn og Ragnhildur, keyptu Prestshús 2 snemma árs 2018 af fjölskyldu Einars en jörðin hefur verið í eigu móðurfjölskyldu Einars í að minnsta kosti 6 kynslóðir. Það hefur lengi verið draumur hjá okkur að búa í sveit, tækifærið sem gafst að kaupa Prestshús 2 og setja á fót gistiheimili hefur gert okkur kleift að upplifa þann draum og það er sérstakur heiður að taka við jörð sem býr að svo sterkri arfleifð. Endurbætur á gamla hluta íbúðarhússins sem Finnbogi Einarsson og Kristín Einarsdóttir byggðu uppúr 1918 hafa gengið vel. Í eldri hlutanum er 4 manna fjölskylduherbergi, sameiginleg eldunaraðstaða, baðherbergi og inngangur í gistiheimilið. Á efri hæð nýrri hluta hússins verða 3 rúmgóð herbergi og salernisaðstaða. Samtals verða þá 4 herbergi með aðstöðu fyrir 10 í gistingu í húsinu. Herbergin upp bera nafn eftir því hvaða útsýni er út um gluggan, Reynisfjall er snýr að grasi gróinni brekku Reynisfjalls, Mýrdalsjökull hefur m. a. útsýni yfir jökulinn og Reyniskirkju en Dyrhólaey hefur útsýni að sjó, yfir Dyrhólaey og Dyrhólaós. Búskapurinn hérna á Prestshúsum 2 er lítið fjárbú með um 40 vetrarfóðraðar ær, 11 hesta, 3 hunda og 3 ketti. Við stefnum á að bæta í flóruna í komandi framtíð eftir því sem endurbætur á útihúsum og jörð leyfa.
Gestum er velkomið að kíkja í fjárhúsin, fara til hestanna eða umgangast hundana eða kettina, allt eftir óskum hvers og eins. Við leggjum áherslu á að allir sem sækja okkur heim njóti verunnar hjá okkur og hafi tækifæri að kynnast sveitinni og íslensku húsdýrunum.